Ég nenni ekki að bíða eftir bílnum - saga um ferðaþjónustu strætó og aðgengi-

Grein eftri Þóreyju Rut Jóhannesdóttir Sendiherra Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

 

Ég hef mikinn áhuga á aðgengismálum. 9. grein samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi  fatlaðs fólks fjallar um aðgengi.

 

Þar segir að aðgengi að ferðaþjónustu skuli vera ódýrt og gott. Ferðaþjónustan hefur verið mikið gagnrýnd frá því að Strætó tók við þjónustunni og það hefur gengið á ýmsu og margir hafa verið ósáttir eins og flestir þekkja. Sumt er þó gott, það er til dæmis gott að fá sms þegar það eru 15 mín í að bíllinn komi.

 

Það er líka gott að geta hringt á kvöldin og pantað bíl og það er jákvætt að geta pantað bíl með styttri fyrirvara en áður.  En það er líka margt sem má bæta eins og til dæmis er biðtíminn eftir að bíllinn  komi stundum of langur.

 

Ég var til dæmis að fara í matarboð um daginn og átti pantaðan bíl klukkan 18:30, hann kom ekki fyrr en rúmlega 19:00 og ég kom allt of seint í matarboðið. Stundum finnst mér að það sé ekki borin virðing fyrir tíma mínum og mér leiðist mikið að bíða eftir bílnum. Tíminn minn er líka dýrmætur, það má ekki gleymast.

 

Ég fékk góða hugmynd um að athuga hvort Jóhannes Svavar Rúnarsson framkvæmdastjóri strætó væri til í að prófa að nota hjólastól og ferðast með ferðaþjónustubíl í einn dag.  Mér fannst mikilvægt að Jóhannes myndi fá tækifæri til að upplifa sjálfur hvernig það sé að vera í hjólastól því þeir sem ekki hafa prófað að sitja í hjólastól í ferðaþjónustubíl átta sig ekki endilega á því að þeir sem nota hjólastól finna meira fyrir aksturslagi, holóttum vegum og hraðahindrunum.

 

Jóhannes tók strax vel í þetta og svo varð að fulltrúar Sendiherranna fóru á rúntinn með honum á Ferðaþjónustubíl númer 508. Fyrsti viðkomustaður var í götunni heima hjá mér.

 

Færðin hafði verið slæm og göturnar voru holóttar. Næst fórum við á Háaleitisbrautina, þangað fer ég í sjúkraþjálfun í hverri viku. Háaleitisbrautin er sérstaklega holótt og þar eru margar hraðahindranir. Mér finnst mjög óþæginlegt að fara yfir hraðahindranir því þá kemur mikill hristingur því bílarnir eru svo hastir. Það hefur áhrif á mig og ég fæ illt í bakið. 

 

Við keyrðum næst í miðbæinn og fórum út hjá Hinu Húsinu. Litlu þröngu göturnar í miðbænum eru líka holóttar. Aðgengið í miðbænum er skelfilegt fyrir fólk sem notar hjólastól. Ég fer því mjög sjaldan í miðbæinn vegna þess hve aðgengið þar er slæmt. Margir staðir þar, verslanir, kaffihús og veitingastaðir eru ekki með aðgengi fyrir fólk sem notar hjólastól.

 

Mér finnst leiðinlegt að geta ekki farið í miðbæinn eins og aðrir. Í staðinn fer ég í Kringluna eða Smáralind því þar er aðgengið gott.

 

Í lok dagsins hittum við Margréti Erlu Maack og hún tók viðtal við okkur sem svo birtist í Íslandi í dag.  Þar sagði Jóhannes að dagurinn hefði verið lærdómsríkur, hann væri orðinn þreyttur í bakinu og að þetta væri erfiðara heldur en hann hafði búist við.

 

Við enduðum svo daginn saman á Kaffihúsinu Te og kaffi í Kringlunni. Dagurinn var fínn og lærdómsríkur fyrir okkur öll. Ég vil nota tækifærið og skora á Dag B. Eggertsson borgrstjóra Reykjavíkur til að prófa að nota hjólastól og vera með okkur Sendiherrunum part úr degi.

 

Þórey Rut Jóhannesdóttir