Sendiherrar Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks!

Sendiherrar Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks urðu til árið 2011. Verkefnið er á vegum Fjölmenntar og er styrkt af Velferðarráðuneytinu. Við erum sex sem erum sendiherrar og við höfum öll reynslu af mannréttindabaráttu. Hlutverk okkar er að fræða fólk um samninginn.

 

Það er mjög mikilvægt að fatlað fólk sé sjálft sérfræðingar í samningnum, því hann bygggir á því sem er mikilvægt fyrir okkur. Öll höfum við orðið fyrir einhverju misrétti og þess vegna stendur Samningurinn  okkur svo nærri. Samningurinn fjallar því um það sem skiptir okkur raunverulega máli.

 

Samningurinn er mannréttindasáttmáli. Mannréttindi eru sameiginlegur réttur allra manneskja á jörðinni. Samningurinn er mikilvægur til þess að fatlað fólk fái sömu réttindi og aðrir og að ekki sé brotið á því. Við erum ekki að biðja um að við fáum meiri mannréttindi en annað fólk heldur þau sömu og að borin sé virðing fyrir okkar rétti.

 

Sendiherrarnir eru mikilvægir til þess að kynna samninginn fyrir  öðru fólki um allt land. Við höfum farið og kynnt í framhaldsskólunum, við höfum heimsótt vinnustaði þar sem fatlað fólk vinnur, við höfum farið í háskóla, grunnskóla, á allskonar vinnustaði og við höfum haldið kynningar á ráðstefnum og svo höfum við kynnt verkefnið erlendis. Þessar kynningar eru orðnar svo margar að við höfum ekki tölu á þeim.

 

Samningurinn var undirritaðar af Íslands hálfu í mars 2007. Síðan eru liðin 9 ár, það hefur mikið verið fjallað um samninginn, það er búið að skora á stjórnvöld en samt sem áður er ekki búið að lögfesta hann á Íslandi. Ísland er meðal þriggja Evrópulanda sem ekki hafa sett samninginn í lög og fyrir það skömmust við okkur. Við notum því tækifærið enn og aftur, berjum í borðið og hvetjum þingið til að festa Samninginn í lög áður en kosið verður á ný.

 

Það er margt sem þarf að bæta í samfélagi okkar og margt brennur á okkur. Við eigum öll okkar áhugasvið og erum talsmenn ólíkra greina innan samningsins. Við munum því á næstunni birta greinar sem hvert og eitt okkar hefur skrifað sem tengjast atvinnumálum, búsetu, fjölskyldulífi, sjálfstæðu lífi, réttinum til að halda frjósemi sinni, stjórnmálaþátttöku, aðgengi og fleira.

 

Við hlökkum til að kynna samninginn fyrir ykkur og því sem skiptir okkur máli.

Virðingarfyllst

Gísli Björnsson

Ína Owen Valsdóttir

María Hreiðarsdóttir

Skúli Steinar Pétursson

Þorvarður Karl Þorvarðarson

Þórey Jóhannesdóttir