María Þ. Hreiðarsdóttir látin

María Þ. Hreiðarsdóttir fyrrverandi formaður og heiðursfélagi Átaks er látin.

María er einn af stofnfélögum Átaks og sat í fyrstu stjórn félagsins sem ritari á árunum 1993 til 1995. María var formaður Átaks í sex ár frá 1995 til 2001.

María var þekkt sem mikil baráttukona og leiðtogi. Baráttumál hennar sem formaður Átaks voru margvísleg. Hún var brautryðjandi í baráttu fyrir réttindum fólks með þroskahömlun til að halda frjósemi sinni og stofna fjölskyldu. Einnig barðist hún fyrir að laun fatlaðs fólks væri sambærileg launum annarra.

María hélt marga fyrirlestra bæði á Íslandi og erlendis sem vöktu mikla athygli.

Hún skrifaði einnig blaðagreinar um baráttumál fólks með þroskahömlun og var einn af sendiherrum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

María eignaðist son sinn Ottó Bjarka árið 2002 og hófst þá nýtt tímabil í lífi hennar. María ræktaði móðurhlutverkið af mikilli alúð og má segja að velferð Ottós hafi átt hug hennar allan, samt sem áður hélt hún ávallt tryggð við Átak, mætti þar á fundi og hvatti fólk til að halda baráttunni áfram

Stjórn Átaks vottar Ottó Bjarka, foreldrum Maríu svo og öðrum aðstandendum og vinum samúð sína.