Býr fatlað fólk enn við skert lífsgæði?

Eru hlutirnir eins og þeir sýnast í raun og veru?
Eru hlutirnir eins og þeir sýnast í raun og veru?

Ný skýrsla um Kópavogshæli er sorgleg lesning. Það er skelfing ein að vita að um 30 árum of seint erum við fyrst núna að vakna upp við þennan vonda veruleika. 

 

Í skýrslunni má lesa sögur um lífsreynslu fatlaðs fólks sem bjó á Kópavogshæli og harmar stjórn Átaks þessar sögur sem nú líta dagsins ljós.  

 

Stjórn Átaks, félag fólks með þroskahömlum ætlar nú í framhaldi af þessari umræðu að birta viðtöl við fólk með þroskahömlun sem segir sínar reynslusögur. 

 

Okkar hlutverk sem félag fólks með þroskahömlun er að birta viðtölin og vekja athygli á því hvernig sumt fólk með þroskahömlum lifir við skert lífsgæði og tjáningafrelsi enn þann dag í dag.

 

Harpa Björnsdóttir starfsmaður hjá Átaki hefur séð um að taka viðtölin og halda utan um verkefnið. Viðtölin vann hún í samstarfi við viðmælendur og blaðakonuna Kristjönu Guðbrandsdóttur hjá Fréttablaðinu. 

 

Í Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks segir að aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja að fatlað fólk geti nýtt sér rétt sinn til tjáningar- og skoðanafrelsis, frelsi til að leita eftir, taka við og miðla upplýsingum og hugmyndum, til jafns við aðra, með hjálp hvers kyns samskiptamiðla að eigin vali. 

 

Markmiðið með samningnum er að stuðla að því að fatlað fólk njóti allra mannréttinda og mannfrelsis til fulls og jafns við aðra, jafnframt því að vernda og tryggja slík réttindi og frelsi, og að auka virðingu fyrir meðfæddri göfgi þess. 

 

Við skorum á stjórnvöld að farið verði eftir samningi þessum og  krefjumst þess að raddir fólks með þroskahömlun fái að njóta sín til fulls jafns við aðra.

 

Á morgun þann 11. febrúar verður fyrsta viðtalið birt í Fréttablaðinu.

 

Með fréttinni mun fylgja hljóðupptaka fyrir þá sem eiga erfitt með lestur.