Fræðsla
Hrós hvatning og lestur

Birgir Hrafn
Fræðsla
Það er mikilvægt fyrir barnið að fá hrós og hvatningu. Hrós er jákvæð athygli sem á að tengjast frammistöðu eða hegðun barnsins frekar en eiginleika. Ef barnið tengir hrósið við hegðun sína þá aukast líkurnar á að hann sýni sömu eða betri hegðun í framtíðinni. Hrós verður þannig hvatning til góðra verka.
Að hvetja börn áfram við lestur
Uppbyggileg hvatning getur hjálpað börnunum að þróa keppnisskapið á jákvæðan hátt t.d. til að læra að lesa. Börnin upplifa það að ef þau leggja vinnu í lærdóminn þá gengur lesturinn smám saman betur. Þau læra frekar og mun hraðar ef þeim er sagt hvað þau gera vel eða rétt frekar en að skamma þau fyrir það sem gengur illa.
Hvernig eflum við sjálfsmynd barna við lestur
Rannsóknir sýna að það skiptir máli hvernig við hrósum. Því er mikilvægt að vanda sig þegar við hrósum börnunum okkar. Að hrósa barni fyrir að vera klárt er ekki fyrirboði um að það geri betur heldur getur það dregið úr hugrekki og lætt inn þeirri hugmynd að barnið efast um getu sína og verður hrætt við að mistakast. Barn sem fær hvatningu fyrir jákvæða hegðun eða virkni er hins vegar líklegra til að reyna meira á sig og gera enn betur. Það fær einfaldlega meiri trú á eigin getu og gefst síður upp við mótlæti. Til að efla sjálfsmynd barna er því mikilvægt að nota hrós og hvetja þau áfram.
Hvernig getum við hrósað börnunum þegar þau eru að læra að lesa. Já það er alls ekki alltaf auðvelt því hrós má ekki vera innihaldslaust. Við verðum að láta börnin vita að við bæði sjáum hvað þau eru að gera og heyrum hvað þau segja. Vertu nákvæm í hrósinu svo barnið viti hvað það gerði vel. Við tölum um og hrósum fyrir að reyna og einnig vinnunna sem liggur að baki því sem þau gera.
Þegar við hrósum þá gerum við það af einlægni, brosum og erum stolt af börnunum. Ef við erum í vandræðum og getum ekki hrósað af einlægni þá speglum við barnið og segjum einfaldlega það sem við sjáum eða heyrum. Til dæmis „ég heyri að þú hefur æft þig á þessu orði eða ég sé að þú ert alveg búin að læra að tengja saman þessi hljóð.“
Hér eru nokkur dæmi um hrós og hvatningu sem henta vel þegar börn læra að lesa:
Almenn hrós við lestur
„Frábært! Ég sé að þú getur lesið þetta alveg sjálf/sjálfur.“
„ Þú ert að bæta þig verulega í lestri.“
„Þú hlýtur að vera stolt/ur af þér að hafa klárað heimalesturinn!“
Hrós fyrir tilraunir og frumkvæði við lestur
„Þú reyndir þrátt fyrir að þetta væri erfitt - það gengur betur næst.“
„Gott að þú spurðir um orðið þegar þú vissir ekki hvað það þýddi.“
„Frábært að þú vildir lesa þetta aftur.“
Hrós fyrir orðaforða og skilning
„Þú skilur söguna svo vel!“
„Flott hvernig þú tengdir þetta við raunveruleikann.“
„Þú notaðir ný orð á réttan hátt.“
„Vel gert að þú skyldir muna þetta orð“
„Þú ert að bæta orðaforðann þinn hratt.“
Skemmtilegt og leikandi hrós við lestur
„Vá, þú ert að verða lestrar ofurhetja!“
„Það er gott að þú skyldir giska á orðið“
„Hver hefði haldið að þetta orð væri svona spennandi?“
Hvetjandi hrós fyrir sjálfstæði
„Það er frábært að þú prófar að lesa án hjálpar.“
„Það sem þú hefur lagt í lesturinn er að skila sér.“
„Þú vannst virkilega vel í dag.“
„Þú finnur alltaf leið til að ráða við erfið orð!“