Fræðsla

Hvernig mælum við árangur í lestri? Íslensk próf

Birgir Hrafn

Fræðsla

September 7, 2025

Árangursmælingar í lestri veita mikilvægar upplýsingar um stöðu nemenda og þróun í námi. Hér fer Lesa yfir íslensk próf, samræmd könnunarpróf og helstu kosti prófa og takmarkanir.

Samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla eiga skólar að fylgjast reglulega með framförum nemenda í lestri, sérstaklega á fyrstu árum náms. Því eru ýmis árangurspróf og stöðumat í lestri lögð fyrir á mismunandi stigum grunnskólans. Slík próf gefa kennurum mikilvægar upplýsingar um hvar nemandi stendur  (hvort hann les á viðeigandi hraða og hvort hann skilur textann) og hvaða stuðning hann þarf. 

Miðstöð menntunar og skólaþjónustu (MMS) stendur að mælingum á árangri með fyrirlögn samræmdra könnunarprófa á landsvísu. Rétt er að geta þess að nýlega var samþykkt nýtt námsmatskerfi, Matsferill sem verður innleitt í alla grunnskóla landsins skólaárið 2025-2026 en það er efni í annan fróðleiksmola.

Í fyrstu greinninni (Árangursmælingar í lestri) var fjallað um orð og hugtök í mælingum og þau útskýrð. Hér er stutt yfirlit yfir árangurspróf á landinu:

  • Lestrarpróf (stafir/hljóð og fyrstu lestrarþrepin) innanhússstöðumat hefjast strax í 1. bekk. Notað er t.d. Lesfimipróf eða sambærileg próf sem sveitarfélög og skólar hafa þróað.

  • Leshraða og lesskilningspróf - innanhússpróf eru lögð fyrir reglulega á 2.–3. bekk.

  • Samræmt könnunarpróf MMS (lestrarfærni og lesskilningur) í íslensku í 4. bekk. 

  • Lestrarfærni (lesfimi og lesskilningur) innanhússpróf eru lögð fyrir 5.-7. bekk.

  • Samræmt könnunarpróf MMS (lesfimi og lesskilningur) í 7. Bekk. Prófið gefur samanburðarhæfan mælikvarða milli skóla og sveitarfélaga. 

  • Samræmt könnunarpróf MMS í íslensku með lestrarhluta ( lestrarfærni og lesskilningur) er í 9. Bekk.

  • Lokapróf í íslensku (lesskilningur og ritun) innanhússpróf er í 10. Bekk. Það er hluti af lokamati í grunnskóla og hefur áhrif á inntöku í framhaldsskóla.


Erlend árangurspróf sem Ísland hefur tekið þátt í eru bæði PISA og PIRLS:

  • PISA  (Programme for International Student Assessment) tekið þátt frá upphafi 2000

  • PIRLS (Progress in International Reading Literacy Study) árin 2001 og 2006

Fjallað er um þessi tvö próf í sérstakri grein: Árangursmælingar í lestri - 3. PISA. 

Samræmd könnunarpróf

Ein helsta árangursmæling í íslenskum grunnskólum eru samræmd könnunarpróf sem lögð eru fyrir í 4., 7. og 9. bekk. Þau ná yfir lykilsvið, einkum íslensku og stærðfræði, auk ensku í 9. bekk. Markmiðið er að veita yfirsýn yfir stöðu nemenda á ákveðnum stigum námsins og tryggja samanburðarhæfni milli skóla og sveitarfélaga. Niðurstöður eru birtar fyrir hvern nemanda og fyrir skólastigið í heild og eru nýttar til að skipuleggja stuðning og þróa kennsluhætti. 

Á síðasta skólaári grunnskóla þreyta nemendur ekki samræmd próf heldur innanhússpróf sem nýtast við inntöku nemenda í framhaldsprófa. Framhaldsskólar líta einnig til samræmdu prófanna sem eru lögð fyrir í níunda bekk. Þannig hafa þau bein áhrif á námsframvindu ungmenna.

Kostir og takmarkanir prófa

Það er áhugavert hve ógagnsæ og matskennd mörg þessara prófa hafa verið. Það er flókið að finna mælanleg markmið með prófunum og veldur einnig vandræðum að lesa úr mælikvarðanum hver niðurstaðan er samanber bókstafafyrirgjöfin. Það veldur því að samanburður í gegnum tíðina er nánast ógerlegur. Gagnasöfnun undanfarin ár -  á meðan beðið var eftir Matsferlinum, hefur verið í lágmarki og erfitt að sjá á einfaldan hátt hver staðan var/er og hvort gengur betur eða verr. 

Árangursmælingar veita nemandanum og foreldrum hans mikilvægar upplýsingar um stöðu hans í samanburði við aðra nemendur en þær eru einnig mikilvægar upplýsingar sem nýtast bæði kennurum til að grípa inn í og stjórnvöldum. Þær geta leitt í ljós veikleika í námsumhverfi og hjálpað til við að marka stefnu um úrbætur. Hins vegar er hætta á að of mikil áhersla á próf og mælingar þrengi markmið skólastarfsins og ýti undir kennslu sem beinist eingöngu að undirbúningi fyrir próf. Þá þarf líka að hafa í huga að niðurstöður prófa endurspegla ekki alla þætti náms.

Viðbótarefni um árangursmælingar

Árangursmælingar í lestri - Hvað er mælt?

Lestrarturninn í PISA


Lesa kemur út haustið 2026

Appið er væntanlegt haustið 2026. Skráðu þig á biðlista

Styrkt af

Tækniþróunarsjóði

©

2025

Lesa. Allur réttur áskilinn

Appið er væntanlegt haustið 2026. Skráðu þig á biðlista

©

2025

Lesa. Allur réttur áskilinn

Styrkt af

Tækniþróunarsjóði

Appið er væntanlegt haustið 2026. Skráðu þig á biðlista

Styrkt af

Tækniþróunarsjóði

©

2025

Lesa. Allur réttur áskilinn