Fræðsla
Leiðir til að styðja barnið í að læra að lesa

Birgir Hrafn
Fræðsla
Að fylgjast með barni taka sín fyrstu skref í lestri er einstök upplifun fyrir foreldra. Það er bæði spennandi og krefjandi, og margir spyrja sig hvernig þeir geti best stutt barnið sitt. Með nokkrum einföldum aðferðum má gera lesturinn skemmtilegan, árangursríkan og hvetjandi.
Hér eru nokkrar leiðir sem hafa reynst vel.
Með því að lesa daglega
Með því að velja áhugaverðar sögur
Með því að hvetja til umræðu
Með því að hrósa og sýna hvatningu
Með því að sýna þolinmæði
Daglegur lestur myndar ákveðna rútínu og öryggi í lífi barnsins. Stuttar lotur skipta jafnvel meira máli en löng áhlaup. Taka þarf tillit til þess hvort barnið er orðið þreytt og lesa þá stutt þann dag. Lestrarnám barnsins kemur ekki í stað fyrir það að lesið sé fyrir það - því er gott að halda sig við að lesa eina síðu eða sögu fyrir svefninn.
Að velja bækur
Efnið skiptir miklu máli. Veljið bækur sem vekja áhuga því börn læra hraðar þegar þau finna tengingu við efnið. Veldu bækur um dýr, bíla eða ævintýri sem barnið elskar.
Gerið lestur að samverustund. Leyfið barninu að benda á orð eða myndir sem vekja forvitni og svaraðu spurningunum þess. Þið getið líka haft frumkvæðið og bent á eitthvað sem vekur athygli ykkar og spurt barnið út í það. Spyrjið t.d. barnið hvað það myndi gera ef það væri persónan í sögunni eða hvað gæti gerst næst. Ræðið persónur og atburði til að efla orðaforða, lesskilning og gagnrýna hugsun.
Hrós og hvatning við lestur
Það er mikilvægt fyrir barnið að fá hrós og hvatningu. Smáar framfarir skipta miklu og jákvæð styrking ýtir undir sjálfstraust. Til dæmis getur þú hrósað barninu ef það les heila línu án hjálpar eða fyrir það að barnið reynir þótt það takist ekki alveg. „Gott að þú heldur áfram þrátt fyrir að þetta sé erfið setning eða vel gert að muna eftir þessu orði“ eru góð hrósyrði í eyru barnsins.
Hafið þolinmæði. Hraði framfara er mismunandi og barnið þarf að finna stuðning en ekki pressu. Hlýja og athygli á meðan lesið er stuðlar að jákvæðum tilfinningum.
Með þessum einföldu en áhrifaríku aðferðum verður lestrarferlið ekki aðeins árangursríkt heldur líka gleðilegt. Foreldrar þurfa ekki að vera sérfræðingar til að styðja börn sín; hlýja, áhugi og samvera nægja oft til að leggja grunn að ást á lestri sem endist út lífið.