„Góð lestrarfærni er hverju barni mikilvægt veganesti út í lífið. Hún er lykillinn að töfrandi heimi orða sem geymir nýja þekkingu, hugmyndir og sammannlega reynslu”
Af hverju tekur Guðbjörg þátt í verkefninu?
Góð lestrarfærni er hverju barni mikilvægt veganesti út í lífið. Hún er lykillinn að töfrandi heimi orða sem geymir nýja þekkingu, hugmyndir og sammannlega reynslu. Góð lestrarfærni er einnig lykillinn að virkri samfélagsþátttöku og gagnrýnni hugsun sem skiptir sköpum fyrir heilbrigt lýðræði. Þess vegna verður að leita allra leiða til að hjálpa hverju barni að verða læst, að öðlast áhuga á lestri og að kenna því að nýta sér lestur í þágu eigin markmiða. Börn eru ólík og misfljót að tileinka sér lestur. Sum þeirra læra að lesa án mikillar fyrirhafnar á meðan lestrarnámið gengur hægar hjá öðrum. Báðir hópar þurfa áskoranir við hæfi, áskoranir sem tryggja framför í námi og viðhald á áhuga. Þess vegna þurfa skólar og heimili að hafa aðgang að fjölbreyttum verkfærum sem geta stutt við lestrarnám allra barna. Lesa.is getur orðið eitt af þessum verkfærum en þar eru á ferðinni stórar og metnaðarfullar hugmyndir í búningi smáforrits sem mun geta stutt við læsi barna á mjög áhugaverðan og fjölbreyttan hátt og eflt þannig veg íslenskunnar. Miðstöð menntunar og skólaþjónustu er ráðgefandi við verkefnið.