„Lestur og ríkur orðaforði er lykill að bjartri framtíð hvers barns. Lesskilningur eflir sjálfstraustið og opnar dyr að ævintýraveröld hins daglega lífs. Nái börn tökum á læsi, ná þau tökum á sjálfum sér”
Af hverju tekur Þorgrímur þátt í verkefninu?
Ég er af gamla skólanum og tel mikilvægast að börn handleiki blað og blýant, í upphafi. Og bók. Það þarf að draga til stafs og mynda hljóð, segja upphátt hvað stafirnir heita. Lestur, skilningur og skrift; LÆSI er grunnur hvers barns til þess að eiga möguleika á því að blómstra í lífinu. Læri börn 2 ný orð á dag, eru það 730 orð á ári. Slíkt er fjársjóður til frambúðar. Tæknin er komin til að vera og við verðum að nýta hana á skynsamlegan máta til að efla læsi. LESA er frábær nýjung til að efla lestur og lesskilning, sem skiptir sköpum í lífi barna. Öll börn fæðast með sköpunargáfur og þær þarf að rækta. LESA getur sameinað sköpun og skilning á íslenskri tungu sem er hverju barni nauðsynlegt. Það þarf að kveikja neista fyrir lestri, með öllum tiltækum ráðum og LESA er frábær nýjung til að styðja við bakið á börnum og foreldrum. Ímyndunaraflið fer á flug af því það er leikur að lesa. Og sá leikur er öllum kær.